Ferill 234. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1996–97. – 1066 ár frá stofnun Alþingis.
121. löggjafarþing. – 234 . mál.


1306. Frumvarp til laga



um samningsveð.

(Eftir 2. umr., 15. maí.)



    Samhljóða þskj. 350 með þessum breytingum:

    29. gr. hljóðar svo:

Rekstrartæki.


    1. Við veðsetningu jarðar er heimilt að semja svo um að jörðinni skuli fylgja rekstrartæki þau sem notuð eru við atvinnurekstur í landbúnaði. Veðsetning rekstrartækjanna gerist þá samtímis veðsetningu jarðarinnar.
    2. Með rekstrartækjum samkvæmt framansögðu er átt við áhöld, vélar og tæki, önnur en ökutæki sem skráningarskyld eru samkvæmt umferðarlögum.
    3. Veðréttur í rekstrartækjum landbúnaðar öðlast réttarvernd þegar réttinum er þinglýst ásamt veðrétti í viðkomandi jörð.
    4. Ákvæði 3., 5. og 6. mgr. 24. gr. og 1.–5. mgr. 27. gr. eiga hér við með sama hætti þegar veðsett eru rekstrartæki landbúnaðar.

    31. gr. hljóðar svo:

Búnaður skipa.


    1. Þeim er veðsetur skip er rétt að semja svo um að skipinu skuli fylgja, auk venjulegs fylgifjár, annað lausafé sem ætlað er til nota á skipinu, svo sem olíubirgðir þær sem í skipinu eru hverju sinni, veiðarfæri, skipsbúnaður og önnur áhöld.
    2. Veðsetningin gerist samtímis veðsetningu viðkomandi skips. Veðrétturinn öðlast réttarvernd með skráningu á blað veðsala í skipabók í samræmi við ákvæði þinglýsingalaga.
    3. Ákvæði 3., 5. og 6. mgr. 24. gr. og 1.–4. mgr. 27. gr. eiga hér við, eftir því sem við getur átt.

    48. gr. hljóðar svo:
    1. Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 1998 og eiga við um þá veðsamninga sem til er stofnað eftir gildistöku laganna.
    2. Fyrir brot gegn ákvæðum 2. málsl. 4. mgr. 3. gr. laga þessara skal refsa skv. 2. tölul. 1. mgr. 250. gr. almennra hegningarlaga nema þyngri refsing liggi við samkvæmt öðrum lagaákvæðum.
    3. Við gildistöku laga þessara falla úr gildi lög um veð, nr. 18 4. nóvember 1887, lög um forgangsrétt veðhafa fyrir vöxtum, nr. 23 13. september 1901, og lög um veðtryggingu iðnrekstrarlána, nr. 47 26. maí 1972.
    4. Framkvæmd laga þessara heyrir undir dómsmálaráðherra.